Lög Knattspyrnufélagsins Víðis

Heiti og aðsetur:

1. gr.
Félagið heitir Knattspyrnufélagið Víðir.
Aðsetur þess og varnarþing er í Garði.

Markmið:

2. gr.
Tilgangur félagsins er að efla og iðka íþróttir og aðra félagsstarfsemi, eftir því sem áhugi félagsmanna og ástæður félagsins leyfa hverju sinni.

3.gr
Félagið er aðili að Í.S.Í., Íþróttabandalagi Suðurnesja svo og landssamböndum og sérráðum í þeim íþróttagreinum sem félagið iðkar og er háð lögum þeirra.

Búningar og merki félagsins

4.gr
Merki félagsins er brúnn knöttur á hvítum grunni með bláu V(vaffi) og tveim víðihríslum í brúnum lit. Nafn félagsins er ritað fyrir ofan. Jaðar merkisins er blár.

5. gr.
Aðalbúningur félagsins er blá og hvít peysa, bláar buxur og bláir sokkar.
Varabúningur félagsins er rauð og hvít peysa, rauðar buxur og rauðir sokkar.
Óski deild eftir breytingum varðandi útlit búninga, skal það borið undir aðalstjórn til samþykktar.

Félagar:

6. gr.
Meðlimir félagsins eru:

a) Heiðursfélagar skv. 15. gr.
b) Skráðir félagar hjá stjórn félagsins.

7. gr.
Félagi getur orðið hver sá sem æskir þess og samþykkir að gangast undir lög og skyldur félagsins.

Skipulag félagsins:

8. gr.
Félagið er myndað af einstaklingum í íþrótta – og félagsdeildum og félagsmönnum utan deilda. Félagið hefur sameiginlega aðalstjórn, sem er æðsti aðili þess milli aðalfunda. Málefnum félagsins er stjórnað af:
1. Aðalfundi félagsins.
2. Aðalstjórn félagsins.
3. Stjórnum deilda.

Aðalfundur og aðalstjórn félagsins:

9. gr.
Árgjöld félagsins skulu ákveðin árlega af aðalfundi.

10. gr.
Aðalstjórn félagsins skipa 7 menn og tveir til vara sem kosnir eru á aðalfundi félagsins.

1. Formaður,
2. Ritari,
3. Gjaldkeri,
4. Varaformaður,
5. Meðstjórnendur
6. Tveir varamenn

Stjórn skal kosin til eins árs í senn.

11. gr.
Stjórn félagsins ber að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir öllum eignum þess og ræður starfsemi þess í aðalatriðum. Stjórn félagsins skal skipa alla trúnaðarmenn þess aðra en þá sem kosnir eru á aðalfundi. Kaup, sala og veðsetningar eigna félagsins er bundin samþykktum aðalfundar. Stjórn félagsins ráðstafar styrkjum frá sveitarfélaginu og öðrum opinberum aðilum og hefur að auki tekjur af lottói, getraunum og félagsgjöldum.

12. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn í febrúar ár hvert. Til aðalfundar skal boða með viku fyrirvara. Allir lögmætir félagsmenn hafa rétt til fundarsetu, málfrelsis og tillöguréttar á aðalfundi. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa heiðursfélagar og skuldlausir félagar eldri en 16 ára og eru þeir jafnframt kjörgengnir í trúnaðarstöður. Gjaldkeri skal þó vera fjárráða. Aðalfundur telst lögmætur ef minnst 15 félagsmenn eru mættir og löglega til hans boðað. Tillögur um breytingar á lögum félagsins skal senda aðalstjórn eigi síðar en 15. janúar. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á lögum félagsins, sem síðar koma fram ef 2/3 hlutar atkvæðisbærra fundarmanna eru því samþykkir.

13. gr.
Dagskrá aðalfundar félagsins, en þar skal fráfarandi formaður gegna störfum fundarstjóra eða skipa sérstakan fundarstjóra og fráfarandi ritari störfum fundarritara, skal vera sem hér segir:
1. Formaður gefur skýrslu um starfsemi og framkvæmdir á liðnu starfsári.
2. Gjaldkeri gefur skýrslu um fjárhag félagsins og leggur fram endurskoðaða reikninga til samþykkis, en endurskoðaðir og samþykktir reikningar deilda skulu liggja frammi til kynningar.
3. Lagabreytingar, ef fyrir hendi eru.
4. Stjórnarkjör,
– kosinn formaður
– kosinn varaformaður
– kosinn gjaldkeri
– kosinn ritari
– kosnir meðstjórnendur
– kosnir tveir varamenn
5) Kosnir tveir skoðunarmenn og einn til vara.
6) Kosið í stjórn Minningarsjóðs Ingimundar Guðmundssonar í samræmi við Skipulagsskrá, sem skal fylgja lögum þessum.
7) Unglingaráðskosning.
– kosinn formaður til eins árs.
– kosinn gjaldkeri til eins árs.
Unglingráðið skipar í önnur embætti á fyrsta fundi sínum.
8) Kosning deildar.
– kosinn formaður til eins árs.
– kosinn gjaldkeri til eins árs.
Deildin skipar í önnur embætti á fyrsta fundi sínum.
Ákvöðun um félagsgjald deildar.
9) Kosið í nefndir og önnur ráð félagsins.
10) Önnur mál.

Allar kosningar í trúnaðarstöður skulu vera leynilegar sé þess óskað og fara fram fyrir luktum dyrum. Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málum þess.

Deildir, starfssvið:

14. gr.
Hver deild innan félagsins skal hafa sérstaka stjórn, sjáfstæðan fjárhag og kennitölu, en starfar á ábyrgð og forræði aðalstjórnar félagsins. Hver deild skal vera fjárhagslega sjálfstæð og skal hafa tekjur af félagsgjöldum félagsmanna deildarinnar, af ágóða íþróttamóta og öðrum fjáröflunum sem hún tekur sér fyrir hendur í samráði við aðalstjórn félagsins. Allar meiriháttar fjárhagslegar ákvarðanir einstakra deilda ber að leggja fyrir aðalstjórn til samþykktar. Í hverri deild skal skrá í sérstaka bók eða í tölvu úrslit kappleikja og árangur einstaklinga eða annað markvert sem fram fer innan deildarinnar.

Reikningsár:

15.gr.
Reikningsár félagsins og deilda þess skal vera almanaksárið. Allir reikningar félagsins skulu vera komnir til endurskoðenda félagsins eigi síðar en sex dögum fyrir aðalfund.

Heiðursfélagar:

16. gr.
Kosningu heiðursfélaga skal hagað þannig, að stjórn félagsins ber fram tillögu um það hvern/hverja heiðra skuli. Kosning er gild sé hún samþykkt af 2/3 hlut atkvæðisbærra fundarmanna. Ekki mega heiðursfélagar vera fleiri en tíu að tölu hverju sinni og ekki má kjósa mann heiðursfélaga sem er yngri en 45 ára. Heiður þessi er sá æðsti sem félagið veitir. Með lögum þessu skal fylgja reglugerð um aðrar viðurkenningar í nafni félagsins.

17. gr.
Heiðursfélagar njóta allra réttinda félagsins, en eru undanþegnir félagsgjöldum.

18. gr.
Stjórnarfundi skal halda þegar þörf þykir. Formaður boðar til stjórnarfundar. Tveir stjórnarmeðlimir geta krafist stjórnarfundar. Ákvæði þetta gildir líka um stjórnir deilda, ráða og nefnda félagsins.

19. gr.
Stofnun nýrra deilda:
Komi fram óskir meðal félagsmanna um stofnun nýrra deilda innan félagsins, skal aðalstjórn taka þær til athugunar. Samþykki aðalstjórn slíka ósk, skal hún sjá um undirbúning að stofnfundi sem fara skal fram samkvæmt ákvæðum laga þessara um aðalfundi deilda. Stofnun hinnar nýju deildar skal síðan leggjast fyrir næsta aðalfund til staðfestingar.

Úrsagnir, eignir félagaslit.

20. gr.
Verði Knattspyrnufélagið Víðir lagt niður skal afhenda eigur þess til Íþróttabandalags Suðurnesja til varðveislu, en eignunum má aðeins verja til eflingar knattspyrnu eða annars íþróttastarfs í Víðishverfinu og ef hliðstætt félag verður síðar stofnað innan Víðishverfisins, skulu eignir þess afhentar hinu nýja félagi til afnota.

21. gr.
Eignir hverrar deildar er sameign félagsins. Hætti deild starfsemi skal stjórn deildarinnar afhenda aðalstjórn félagsins eignir hennar. Verðlaunagripir og verðmæt skjöl skulu vera í vörslu aðalstjórnar. Deildin verður ekki slitið nema á aðalfundi félagsins og þá með samþykki 4/5 hluta viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna.

Lög og lagabreytingar:

22. gr.
Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi.

23. gr.
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

24. gr.
Með lögum þessum eru öll eldri lagafyrirmæli úr gildi numin.

Gildistaka:

25. gr.

Lög þessum var breytt á aðalfundi 11. mars 2019 og tóku þá gildi.